112

Fréttir

Vel heppnuð sýning á enda runnin

Nú um helgina hefur staðið yfir sýning á slökkvistöðinni þar sem ýmsir munir, myndir, blaðagreinar og margt fleira naut sín vel í skemmtilegu umhverfi. Það er óhætt að segja að sýningin hafi tekist mjög vel í alla staði og ekki enn komin sú manneskja sem fór ósátt út af henni. Á föstudaginn var öllum gömlum starfsmönnum slökkviliðsins boðið í sérstaka opnun ásamt öðru góðu fólki og mætingin var frábær. Margar sögur rifjuðust upp hjá gömlu hetjunum og að þeirra mati var þetta frábært framtak núverandi starfsmanna. Ellert Eiríksson fór algerlega á kostum sem veislustjóri þar sem hann sagði skondnar sögur frá fyrri tíð og hann náði vel til allra gesta. Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar tók einnig til orða og minntist á að það væri lykilatriði fyrir samfélag sem okkar að vera með svo öflugt og gott slökkvilið og þetta væri ein grunnstoðum bæjarfélagsins. Nýtt myndband þar sem stiklað er á stóru um þá starfssemi sem fram fer hjá BS var frumsýnt og fékk mjög góðar undirtektir frá gestum. Að lokum var öllum boðið upp á léttar veitingar. Sýningin var svo opin á laugardaginn frá 13-17 og aðsóknin eins og áður sagði mjög góð. Því var ákveðið að vera einnig með opið á sunnudeginum frá 13-17 og ekki veitti af því það var stanslaus straumur allann tímann.

En til að svona sýning gangi upp þurfa margar hendur að koma að. Og það var einmitt það sem gerði þetta að raunveruleika því fjölmargir réttu fram hjálparhönd og fyrir það vil stjórn Félags starfsmanna Brunavarna Suðurnesja þakka kærlega. Talið er að hátt í 1500 manns hafi komið á stöðina og skoðað allt það sem á boðstólum var og eru starfsmenn BS í skýjunum yfir þessum móttökum og þakkar öllum kærlega fyrir komuna. Nú hefst undirbúningur fyrir næstu tímamót en það verður 15. apríl árið 2013 en þá fagna Brunavarnir Suðurnesja 100 ára afmæli og við lofum enn flottari sýningu þá.

En enn og aftur kærar þakkir fyrir alla aðstoð og kærar þakkir fyrir komuna,

Kveðja,
Afmælisnefnd F.S.B.S.


Gömlu hetjurnar saman komnar á ný


Sýningin var vel sótt alla helgina


Tveir af þeim "gömlu", Njáll Þórðarson og Sigmundur Eyþórsson


Gamli jálkurinn naut sín vel á Ljósanótt

Fleiri myndir koma svo í myndasafn á næstu dögum.