112

Fréttir

Þingmenn í heimsókn hjá Brunavörnum Suðurnesja

Þingmenn suðurkjördæmis komu í heimsókn á slökkvistöðina s.l. mánudag til þess að fara fyrir þá stöðu sem upp er komin er varða sjúkraflutninga á Suðurnesjum. Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóri fór yfir þá stöðu sem upp er komin vegna skertra framlaga til rekstur slökkviliðsins og hversu lítinn hluta ríkið greiðir vegna samnings um sjúkraflutninga. Samningurinn rann út um síðustu áramót en nú er unnið samkvæmt bráðabirgðarsamkomulagi sem rennur út 1. mars n.k. Enn hefur ekki verið haldinn fundur með Sjúkratryggingum Íslands sem fer með samningsumboð fyrir heilbrigðisráðuneytið.
Farið var vel yfir hvaða afleiðingar það hefði í för með sér ef ekki næst eðlilegur og sanngjarn samningur, þ.e. að óbreyttur samningur þýðir verulegan samdrátt í rekstri Brunavarna Suðurnesja með tilheyrandi skerðingu á sjúkraflutningaþjónustu við íbúa svæðisins, en sú niðurstaða væri algjörlega óviðunandi fyrir Suðurnesjamenn.
Þingmennirnir tóku beiðni um aðstoð við að koma á eðlilegum  samningi vel og lofuðu að leggjast á árarnar með okkur í komandi samningaviðræðum við Sjúkratryggingar Íslands, þannig að viðunandi samningur náist og að Brunavörnum  Suðurnesja verði gert  kleift að sinna sjúkraflutningum með eðlilegum hætti eins og verið hefur fram að þessu.
Við þökkum þingmönnum fyrir komuna og þann skilning sem þeir sýndu og fyrirheit um að legga okkur lið í þessari mikilvægu baráttu fyrir Suðurnesjamenn.

Jón Guðlaugsson.