112

Fréttir

Töluverður erill um áramót og á nýársdag

Óhætt er að segja þó nokkur erill hafi verið á starfssvæði Brunavarna Suðurnesja um áramótin og á nýársdag. Sjö sinnum á stuttu tímabili í nótt voru starfsmenn kallaðir út í sjúkraflutning og á tímabili voru þrír bílar úti á sama tíma. Þrisvar var slökkvilið kallað út en í tvö skipti var um eld að ræða. Í fyrra skiptið var tilkynnt um eld í ruslagám við Sigurjónsbakarí og það seinna var í litla "brennu" sem er algeng um áramótin. Þar hafa óprúttnir aðilar safnað öllum notuðum flugeldum og skotkökum saman og haldið sína eigin áramótabrennu. Oft verður mikill reykur frá þessu sem jafnvel berst inn í nærliggjandi hús og það getur verið hættulegt. Reyndar voru nokkrar þannig brennur sem þurfti að slökkva í nótt en ákveðið var að taka smá rúnt um svæðið og kanna hvort um fleiri brennur væri að ræða og þá komu í ljós eins og áður sagði nokkrar. Þriðja útkallið var vegna umferðaróhapps þar sem þörf var á að hreinsa upp olíu sem lekið hafði frá bílnum.

Nýársdagur byrjaði rólega og greinilegt að íbúar á svæðinu hvíldust vel eftir áramótafagnaðinn. En svo um 17:00 barst tilkynning um eld í gömlum herbragga á verktakasvæðinu á Ásbrú. Braggi þessi er síðasti sinnar tegundar og jafnvel var áætlað að nýta hann sem hluta af herminjasafni hér í Reykjanesbæ. Líklegt er talið að um íkveikju hafi verið að ræða en ekkert rafmagn var á bragganum. Búið var að brjóta allar rúður og sparka upp hurðum. Við komu slökkviliðs var bragginn alelda en greiðlega gekk að slökkva eldinn en kalla þurfti út auka mannskap. Slökkvistarfi lauk svo rétta rúmlega 19:00. Ljóst er að þarna brunnu til kaldra kola einar elstu minjar sem til eru um veru hersins hér á landi og því óhætt að segja að þó að fjárhagslegt tjón hafi ekki verið mikið þá er tjónið engu að síður töluvert ef litið er til sögugildi braggans. 

Það var svo rétt eftir miðnætti sem slökkviliðið var aftur kallað út en tilkynnt var inn til Neyðarlínu að mikill reykur og háar sprengingar bærust frá gömlu olíubirgðastöð Olís á Hafnarvegi í Njarðvík. Er slökkviliðið kom á staðinn stóð mikill reykur upp frá húsinu en það var allt harðlæst og búið að negla krossviðsplötur fyrir flesta glugga. Hafist var handa við að saga gat á eina hurðina og reykkafarar fóru svo inn. Mikill hiti og reykur var inn í húsinu en ekki mikill eldur. Ekki er hægt að fullyrða um neitt varðandi eldsupptök en eins og áður sagði var húsið harðlæst og því erfitt að komast þar inn án þess að skilja eftir einhverskonar ummerki. Mikill eldsmatur var inni og í raun mesta mildi að húsið var lokað þar sem súrefni átti ekki greiða leið inn. Slökkvistarfi var svo lokið um 02:30 en húsið var svo vaktað til 04:30.

Hilmar Bragi fréttamaður hjá VF var á báðum stöðunum og náði nokkrum myndum.

Frá brunavettvangi við gamla herbraggann.

Frá brunavettvangi við gamla herbraggann.

Frá brunavettvangi við gamla herbraggann.

Frá brunavettvangi við gömlu olíubirgðastöð

Frá brunavettvangi við gömlu olíubirgðastöðina.

Frá brunavettvangi við gömlu olíubirgðastöðina.