112

Fréttir

Starfsmenn skiluðu inn boðtækjum

Í morgun klukkan 08:00 var meirihluti starfsmanna Brunavarna Suðurnesja mættur á slökkvistöðina í þeim tilgangi að skila inn boðtækjum sínum og verður ekki tekið við þeim aftur fyrr en búið er að semja. Þessi aðgerð er vegna verkfalls sem tók gildi í morgun og stendur yfir til 16:00. Eins og komið hefur fram þá verður ekki sinnt sjúkraflutningum sem flokkast undir F-4 en það er flutningar sem ekki eru bráðnausðynlegir. Einnig verður ekki sinnt brunaútköllum sem flokkast undir F-3 en það eru eldar á víðavangi þar sem fólk, umhverfi og eignir eru ekki í bráðri hættu.

Ingvar Georgsson sem er fulltrúi starfsmanna B.S. í samningaviðræðum við launanefnd sveitarfélaga tilkynnti stjórnendum að menn væru þangað mættir til að skila inn sínum símum. Ástæðan væri sú að ekki hefur enn verið hlustað á kröfur slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Samningar séu búnir að vera lausir síðan í ágúst 2009. Ingvar lýsti þessum degi sem einum svartasta degi í sögu Brunavarna Suðurnesja en mönnum finnist þeir knúnir til að grípa til þessara ráða.

Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóri tók í sama streng þegar hann tók á móti boðtækjunum. Þetta væri mjög slæmt fyrir samfélagið og hann vonaðist eftir því að hlutir færu sem allra fyrst í fyrra horf. 

Næsta lota í þessu verkfalli verður 6. ágúst en þá stendur það yfir frá 08:00 og til 24:00. Þar á eftir verður gripið til aðgerða þann 13. ágúst en þá verður líka algert yfirvinnubann.