112

Fréttir

Ný og glæsileg starfsmannaaðstaða tekin í notkun

Í gær var ný og glæsileg starfmannaaðstaða tekin í notkun á slökkvistöð Brunavarna Suðurensja. Starfsmenn BS hafa síðustu tvo mánuði unnið nótt sem dag í sjálfboðavinnu við að gera aðstöðuna klára og í gær lauk þeirri vinnu.  Við þetta tækifæri bauð slökkviliðsstjórinn, Jón Guðlaugsson öllum starfsmönnum ásamt fjölskyldum þeirra, stjórn BS, starfsmönnum SSS og fleiri aðilum til kaffisamlætis og þakkaði hann öllum sem lögðu hönd á plóg. Einnig tók Gunnar Stefánsson formaður stjórnar BS til orða en hann vann einmitt sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá BS fyrir nokkrum árum. Hann þakkaði starfmönnum fyrir ómælda vinnu sem þeir hafa lagt í þetta verkefni og var ánægður fyrir hönd starfsmanna að þessi aðstaða væri nú orðin að veruleika.  Þessi aðstaða kemur til með að gjörbreyta vinnuumhverfi fyrir starfsmenn en hún hefur verið nær óbreytt í nokkra tugi ára en það er eitthvað sem maður sér ekki á mörgum vinnustöðum í nútíma samfélagi.   

Ákveðið var að fara þessa tímabundnu leið en til hefur staðið að byggja nýja slökkvistöð í mörg ár en einhverra hluta vegna hefur það setið á hakanum og ljóst er að ekkert verður af því næstu árin. Starfsmenn hafa sýnt mikla þolinmæði hvað þetta varðar en eru afar þakklátir fyrir það að vera komnir með mannsæmandi aðstöðu sem mun eins og áður sagði gjörbreyta öllu.

Ingvar Georgsson starfsmaður Brunavarna Suðurnesja var á staðnum og mundaði myndavélina en hægt er að sjá fleiri myndir í myndasafni.