112

Fréttir

Er ekki mál að linni?

Um kl 21:30 2.08.09 varð enn eitt umferðarslysið á gatnamótum Reykjanesbrautar og Grænásvegar en þar rákust saman olíubíll og fólksbíll og urðu slys á fólki í þessum árekstri  svo ekki sé talað um eignartjón.
Harðir árekstar hafa orðið  á þessum gatnamótum sem eru þau hættulegustu hér á Suðurnesjum.  Fyrir síðustu kostningar var lofað að komið yrði upp  hringtorgi á þessum gatnamótum  til þess að auka umfreðaröryggi  og koma í veg fyrir fleiri slys.  Í niðurskurðartillögum samgönguráðherra var þessari mjög svo  nauðsynlegu framkvæmd slegið á frest með þeim afleiðingum  að enn alvarlegri slys eiga eftir að verða og einungis tímaspursmál  hvenær dauðaslys verður.
Okkur slökkviliðs og sjúkraflutningamönnum er betur ljóst en mörgum öðrum  a.m.k betur ljóst en samgönguráðherra hversu mikilvægt er að gera þær samgöngubætur sem lofað hefur verið og Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur barist fyrir.
Við brotthvarf varnarliðsins og í kjölfarið öflugrar uppbyggingar á Ásbrú hefur umferð um fyrrnefnd gatnamót margfaldast og mun aukast á komandi árum, hér er um að ræða hverfi í Reykjanesbæ þar sem Reykjanesbrautin sker byggðina í sundur með þeim hættum sem það hefur í för með sér fyrir akandi og gangandi vegfarendur. Mér er það til efs að annarstaðar á landinu finnist aðrar eins aðstæður  og hér hefur verið lýst.
 Ég vil skora á alla þingmenn kjördæmisins   að þrýsta á samgönguráðherra  að standa  við gefin loforð hvað þetta verkefni varðar og koma þannig í veg fyrir fleiri slys en þegar hafa orðið á þessum gatnamótum,  við verðum að láta hættulegustu staðina í umferðarkerfinu hafa forgang.

Jón Guðlaugsson
Slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja


Myndin er frá einu af fjölmörgum slysum á þessum stórhættulegu gatnamótum.