112

Fréttir

Bruni í gamla bænum

Klukkan rétt rúmlega tólf í dag var slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kallað út vegna bruna í húsi á Vallargötu í Keflavík. Við komu var mikill eldur og talsverður reykur. Slökkviliðsmenn náðu fljótlega að slökkva eldinn en hann hafði borist á milli hæða og skemmdir voru miklar en eldsupptök voru í stigahúsi. Ekki er búið að staðfesta orsök eldsins en talið er að logandi kerti hafi verið sökudólgurinn í þetta skiptið. Húsið er tvíbýli og varð fólkið á neðri hæðinni ekki vart við eldinn fyrr en íbúi í sömu götu kom að og gerði þeim viðvart. Ekki urðu nein slys á fólki.

Á sama tíma og útkallið kom var einn sjúkrabíll í Reykjavík svo að vaktin var einungis hálfmönnuð. Kalla þurfti því út auka mannskap en einmitt þessa dagana stendur yfir námskeið hjá starfsmönnum BS á vegum sjúkraflutningaskólans og þurfti að kalla út meirihluta þeirra sem þar voru. Slökkvistarfi var alveg lokið um 14:30 og lögregla tekin við vettvangi.

Kristján Helgi Jóhannsson slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður var með myndavélina á lofti á brunavettvangi og má sjá hluta af þeim hér fyrir neðan.