Brunavarnir aðstoða við að ná Svan KE 90 á flot

Í morgun voru Brunavarnir Suðurnesja kallaðir út í aðstoð við að ná 60 tonna eikarbátnum Svan KE 90 á flot en hann sökk í Njarðvíkurhöfn síðastliðinn sunnudag. Það voru starfsmenn Köfunarþjónustu Sigurðar sem sáu um verkið ásamt slökkviliðsmönnum frá BS sem sáu um uppdælingu en öflugar dælur þurfti þar sem um gífurlegt magn af sjó var að ræða. Dæling gekk vel og tók um 30 mínútur að dæla öllum sjónum upp. Að því loknu var farið í það að athuga með skemmdir á bátnum innan frá en við fyrstu skoðun var ekkert stórvægilegt að sjá. Stefnt er að því að koma bátnum upp við slippinn í Njarðvík við fyrsta tækifæri. Meðfylgjandi myndir tók Sigurður Skarphéðinsson þegar mannskapurinn var við störf í Njarðvík í dag.