112

Fréttir

Annasöm helgi að baki

Tvö brunaútköll og yfir þrjátíu sjúkraflutningar.

Það var í nógu að snúast hjá starfsmönnum BS um helgina en útköllin voru samtals 33 og þar af voru tvö brunaútköll. Á sunnudaginn var slökkviliðið kallað tvisvar út þar sem um staðfestan eld var að ræða. Fyrra útkallið var í íbúðarhúsi við Fagradal í Vogum en tilkynnt var um reyk frá þakskeggi hússins klukkan 13:46. Áður en slökkvilið og lögreglu bar að garði höfðu nágrannar reynt að slökkva eldinn með slökkvitækjum. Flytja þurfti svo lögreglumann á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun en hann hafði farið inn í húsið til að athuga hvort einhver væri þar inni. Í ljós kom að eldur var logandi í millilofti og ekki mátti miklu muna að illa færi en sperrur voru meðal annars byrjaðar að sviðna. Grunur leikur á að kviknað hafi í út frá ljósi. Þó nokkrar skemmdir urðu á húsinu bæði vegna elds og reyks.

Það leið svo ekki á löngu þar til að slökkviliðið var kallað aftur út vegna elds en nú var það á Hringbraut í Keflavík. Starfsmenn voru nýbúnir að ganga frá eftir útkallið í Vogunum þegar það kom klukkan 18:58. Þar var þó um minniháttar eld að ræða og í raun aðeins þörf á reykræstingu. Eins og áður sagði að þá voru útköllin um helgina 33 talsins og þar af 31 sjúkraflutningur.

Starfsmenn Brunavarna Suðurnesja vilja minna fólk á að fara varlega í umferðinni nú þegar hálkan fer að segja til sín og jafnframt að fara varlega þegar kemur að kertaskreytingum og uppsetningu á jólaljósum, en það þarf ekki mikið að bregða út af til að stórtjón líti dagsins ljós.

 

Mynd tekin á vettvangi í Vogum.