112

Fréttir

Afmælissýning F.S.B.S.

Þann 25 febrúar árið 1969 var eftirfarandi ritað:

„Stofnfundur fyrir félag slökkviliðsmanna í Keflavík haldinn hinn 25. febrúar 1969 í Slökkvistöð Keflavíkur. Mættir eru 19 manns. Fyrir fundinn lá tillaga um lög fyrir félagið, á fundinum kom fram tillaga um nafn á félagið og var samþykkt af öllum að félagið skuli heita „Félag slökkviliðsmanna Keflavíkur.“ Tillaga kom fram frá Helga S. Jónssyni um að bæta c og d lið við 2. Gr. í 1. kafla en hún hljóðaði þannig:
Hlutverk félagsins er
c. að vera málssvari slökkviliðsmanna og gæta hagsmuni þeirra.
d. að efla starfsþekkingu og hæfni slökkviliðsmanna.
Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Að öðru leiti var tillagan um lög fyrir félagið samþykkt. Tillaga kom fram frá Árna Ólafssyni um að félagsmenn komi saman minnst á tveggja mánaða fresti.
Kl 21:30 var svo stofnfundi lokið.”

Undir þessa færslu kvittaði Lárus Kristinsson en hann var fyrsti ritari félagsins. Ingiþór Geirsson var fyrsti formaður, Ellert Eiríksson fyrsti gjaldkeri og Jón Þorvaldsson fyrsti varamaður í stjórn FSK eða Félags slökkviliðsmanna í Keflavík. Félagið á því 40 ára afmæli í ár. Félag þetta hefur starfað allar götur síðan en þó varð breyting á nafni þess árið 1988 en þá var því breytt í Félag starfsmanna Brunavarna  Suðurnesja. Fjölmargir fyrrum starfsmenn hafa starfað fyrir félagið og enn fleiri hafa starfað á einhvern hátt fyrir annað hvort Slökkvilið Keflavíkur eða Brunavarnir Suðurnesja. Félagið hefur unnið að mörgum málefnum bæði fyrir starfsmenn og íbúa á þjónustusvæði Brunavarna Suðurnesja í gegnum tíðina og gerir enn. Það er því mikil og merk saga á bakvið þetta félag og að mati núverandi stjórnarmanna ber að halda henni hátt á lofti. Að því tilefni hefur verið ákveðið að setja upp sýningu á  Slökkvistöðinni á Hringbraut. Sýningin opnar föstudaginn 4. september kl. 14:00 en þá verður hún einungis opin fyrir boðsgesti. Á meðal boðsgesta verða fyrrverandi starfsmenn Brunavarna Suðurnesja en þeir fá allir afhent sérstakt afmælismerki félagsins. Á laugardeginum opnar svo sýningin fyrir alla kl. 13:00 og er opin til 17:00. Starfsmenn BS hafa unnið hörðum höndum frá því í mars á þessu ári við að undirbúa sýninguna og óhætt að segja að þetta verður bæði fróðlegt og skemmtilegt. Til að mynda verður nýtt myndband um starfssemi slökkviliðsins frumsýnt, blaðagreinar úr ýmsum blöðum verða til sýnis og margt fleira.

Við hvetjum alla til að mæta og skoða sögu slökkviliðsins í máli og myndum. Búið er að setja lítið brot af því sem verður til sýnis inn á myndasafnið hér á www.bs.is/myndasafn en þetta er aðeins smjörþefurinn af því sem verður til sýnis.