112

Fréttir

Útskrift frá Sjúkraflutningaskólanum

Útskrift nemenda Sjúkraflutningaskólans fór fram við hátíðlega athöfn á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri föstudaginn 22. maí síðastliðinn. Samtals voru níu starfsmenn frá Brunavörnum Suðurnesja sem útskrifuðust, sex af neyðarflutningsnámskeiði og þrír af grunnnámskeiði. Samtals voru 89 nemendur sem útskrifuðust þetta árið og góð mæting var á útskriftina að þessu sinni en til að mynda hafa aldrei jafnmargir mætt frá Brunavörnumm Suðurnesja.

Námskeiðin voru haldin um allt land auk þess sem eitt grunn- og eitt neyðarflutninganámskeið fóru fram með notkun streymis en í því felst að fyrirlestur er tekinn upp og sendur út á vefinn þannig að nemendur geta séð og heyrt fyrirlestra hvar og hvenær sem er. Það er þó samdóma álit að þessi tækni henti vel fyrir þá sem búa í dreifbýli eða sækja námið samhliða starfi. Þrír af útskriftarnemum BS tóku þátt í neyðarflutningsnámskeiði með notkun streymis.

Að lokinni útskrift var öllum boðið á Slökkvistöðina á Akureyri þar sem kollegar okkar buðu upp á léttar veitingar áður en hópurinn fór á Greifann þar sem snæddur var kvöldverður. Starfsmenn Brunavarna Suðurnesja vilja koma á framfæri þökkum til allra hjá Sjúkraflutningaskólanum og Slökkviliði Akureyrar fyrir góðar móttökur og minnum þessa aðila á að láta sjá sig á afmæli Félags starfsmanna Brunavarna Suðurnesja sem haldið verður á Ljósanótt, fyrstu helgina í september.


Hluti af útskriftarhópnum eftir afhendingu skírteina


Einn af starfsmönnum BS fær sitt skírteini afhent.