Áramótakveðja frá Brunavörnum Suðurnesja

Nú fer í hönd sá tími sem við fögnum nýju ári og kveðjum það gamla og er það venju samkvæmt gert með flugeldum þegar við teljum inn nýja árið. Bera þá starfsmenn Brunavarna Suðurnesja smá ugg í brjósti því alvarleg slys eru því miður stundum fylgifiskar þeirra. Hafa skal í huga þegar flugeldar eru meðhöndlaðir að fara eftir leiðbeiningum sem fylgja þeim og hafa í huga að flugeldar eru ekki fyrir börn að vera með nema í umsjá fullorðinna en algengustu slysin verða þegar verið er að fikta við flugelda og leiðbeiningum ekki fylgt. Vanda skal staðsetningu og undirstöðu fyrir flugelda og tertur, nota hlífðargleraugu og hanska, ekki úr gerfiefnum og vera í hæfilegri fjarlægð þegar skotið er. Flest slys verða þegar fullorðnir sem og unga fólkið er að fikta við flugelda og búa einhvað til sem ekki er hugsað til enda og fer illa ef það springur í höndum fólks eða í andlit. Hafið í huga að brunaslys eru alltaf alvarleg og þarf ekki stóran bruna til að það sé orðið lífshættulegt, að ekki sé minnst á hversu alvarleg heyrnar- og augnslys geta orðið og eru oftast óafturkræf. Einnig skal á það bent að ef flugeldur springur ekki skal ekki vera að handfjatla hann og reyna að ganga svo frá að engin hætta sé af honum. Fylgist vel með unga fólkinu og passið að þau séu ekki að eiga við ósprungna flugelda og ekki má gleyma dýrunum en þetta er ekki góður tími fyrir þau. Ef brunaslys ber að höndum skal kæla brunasár með köldu vatni í byrjun og hringja í 112 og leita upplýsinga eða biðja um sjúkrabíl ef þurfa þykir. Brunavarnir Suðurnesja óska ykkur velfarnaðar á nýju ári með þá von í brjósti að allir eigi skemmtileg og slysalaus áramót í vændum.
Sigurður Skarphéðinsson
Varaslökkviliðsstjóri
Brunavarna Suðurnesja